Starfsemi og skipulag

Stjórn Landvarðafélagsins er skipuð fimm mönnum, auk tveggja varamanna. Sætin fimm skipa formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Stjórn ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Engu veigaminni er sá þáttur er lýtur að kynningarmálum, þ.e. að kynna stefnu og starfsemi félagsins. Liður í því er að vinna með öðrum félögum og stofnunum að náttúruverndarmálum. Allt þetta og fleira til sjá lög 8. gr.) er í höndum stjórnar að sjá um að vel fari.

Auk stjórnar starfa innan félagsins 5 fastanefndir. Ber þar fyrst að nefna ritnefnd. Í þeirri athafnasömu nefnd sitja tveir félagar. Þar á bæ fer fram yfirumsjón og uppsetning fréttabréfsins Ýlis.

Næsta ber að nefna fræðslu- og skemmtinefnd. Þar á bekk sitja þrjár valinkunnar persónur og gegna eins og nafnið bendir til lykilhlutverki í skipulagningu viðburða á sviði fræðslumála. Þar má nefna umsjón með almennri fræðsludagskrá og endurmenntun. Skipulagning skemmtanahalds er engu veigaminni þáttur. Má þar nefna haustferðir, jólaglögg og vorfagnaði, sem haldnir hafa verið árvisst. Hefur þá oftar en ekki verið blandað saman fræðslu- og skemmtidagskrá.

Í alþjóðanefnd eiga sæti þrír víðsýnir félagar. Meginhlutverk þeirra er að halda utan um samskipti við erlend systursamtök. Enn sem komið er hefur mest farið fyrir samskiptum milli skoskra og íslenskra landvarða og hefur sú reynsla og þekking sem skiptst hefur verið á gefið góða raun (sjá nánar Alþjóðasamskipti).

Laganefnd er skipuð þremur beinskeyttum félögum. Ár hvert renna nefndarmeðlimir gagnrýnum augum yfir lög félagsins og koma á aðalfundi fram með breytingartillögur ef einhverjar eru (sjá Lög).

Í kjaranefnd sitja þrír fjárglöggir félagar, auk tveggja til vara. Hlutverk þeirra er að vera fulltrúar landvarða gagnvart samningum þeim sem í gildi eru á milli ríkisins og Starfsgreinasambands Íslands (áður Verkamannasambands Íslands) og varða kaup og kjör landvarða.