Hlutverk

Reglugerð um landverði  

 

Meginhlutverk landvarða er:

  •     að gæta þess að ákvæði friðlýsingar og náttúruverndarlaga séu virt á hverju svæði fyrir sig.
  •     að taka á móti gestum og veita þeim nauðsynlegar upplýsingar og kynna þeim umgengnisvenjur og reglur hvers svæðis.
  •     að fræða fólk um gönguleiðir, náttúrufar, staðhætti og sögu.
  •     að sjá um að halda svæðum hreinum, þ.e. tjaldsvæðum, göngustígum og bílaplönum, sem og klósettum og kömrum; náttúruvættum og náttúru þess svæðis sem þeir vinna á.
  •     að merkja göngustíga, leggja nýja og halda þeim við.
  •     að vera til aðstoðar þeim sem á svæðunum dvelja.
  •     að hafa eftirlit með umferð og umgengni ferðamanna.
  •     að vera til taks þegar slys ber að höndum, veita fyrstu hjálp og kalla á lækni, lögreglu eða björgunarsveitir ef ástæða er til.
  •     að stjórna fyrstu aðgerð við leit ef einhver týnist á svæðinu, kalla til lögreglu og björgunarsveitir og aðstoða þær ef með þarf.

Áhersla er lögð á að hægt sé að leita til landvarða hvenær sem þörf krefur, allan sólarhringinn.

 

 

Kaflar um landverði í Náttúruverndarlögum

XIV. kafli. Umsjón og eftirlit með náttúruverndarsvæðum.

 79. gr. Yfirumsjón og ábyrgð á eftirliti.

 Umhverfisstofnun hefur yfirumsjón með náttúruverndarsvæðum og ber ábyrgð á eftirliti með þeim nema annað sé tekið fram í lögum. Ráðherra getur falið stofnuninni umsjón með öðrum svæðum sem sérstök þykja sakir landslags, jarðminja, gróðurfars eða dýralífs.

 Umhverfisstofnun gefur ráðherra árlega skýrslu um ástand náttúruverndarsvæða í umsjá stofnunarinnar.

 80. gr. Landverðir.

 Á náttúruverndarsvæðum starfa landverðir og eftir atvikum aðrir starfsmenn. Landverðir annast daglegan rekstur og umsjón, eftir atvikum í samræmi við [stjórnunar- og verndaráætlun], 1) sbr. 81. gr., sinna fræðslu og fara með eftirlit, sbr. 84. gr.

 Ráðherra setur í reglugerð, að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar, nánari ákvæði um menntun og starfsskyldur þeirra sem starfa á náttúruverndarsvæðum.

 Umhverfisstofnun skal halda námskeið í landvörslu í samræmi við reglugerð ráðherra, sbr. 2. mgr. Umhverfisstofnun er heimilt að taka gjald fyrir námskeið í landvörslu og próftöku sem þátttakendur greiða. Upphæð gjalds má ekki vera hærri en sá kostnaður sem hlýst af námskeiðshaldi og vinnu vegna próftöku. Ráðherra setur gjaldskrá að fengnum tillögum Umhverfisstofnunar og skal hún birt í B-deild Stjórnartíðinda.

    1)L. 109/2015, 3. gr. 

82. gr. Rekstur þjóðgarða.

 Í hverjum þjóðgarði samkvæmt lögum þessum skal starfa þjóðgarðsvörður sem er starfsmaður Umhverfisstofnunar. Þjóðgarðsverðir skulu hafa sérþekkingu og reynslu sem nýtist þeim í starfi.

 Þjóðgarðsvörður annast daglegan rekstur og umsjón þjóðgarðs í samræmi við [stjórnunar- og verndaráætlun], 1) sér um fræðslu og fer með eftirlit í samræmi við 84. gr. Þjóðgarðsvörður ræður annað starfsfólk þjóðgarðsins, þar á meðal landverði, og skipuleggur starf þess.

 Ráðherra er heimilt að stofna þjóðgarðsráð með þátttöku hlutaðeigandi sveitarstjórna, stofnana og eftir atvikum félagasamtaka á sviði náttúruverndar og ferðaþjónustu til að vera þjóðgarðsverði til ráðgjafar um málefni þjóðgarðsins.

 Þjóðgarðsvörður og þjóðgarðsráð taka þátt í gerð og endurskoðun [stjórnunar- og verndaráætlunar] 1) fyrir þjóðgarðinn.

    1)L. 109/2015, 3. gr. 

 84. gr. Eftirlit á náttúruverndarsvæðum.

 Landverðir, þjóðgarðsverðir og aðrir starfsmenn náttúruverndarsvæða hafa eftirlit með því að virt séu ákvæði laga þessara og aðrar reglur sem um svæðin gilda. Þeir annast samskipti við lögreglu og önnur eftirlitsstjórnvöld vegna brota á lögum og reglum.

 Landvörðum, þjóðgarðsvörðum og þeim sem falið er eftirlit á grundvelli 2. mgr. 85. gr. er heimilt að vísa af viðkomandi náttúruverndarsvæði hverjum þeim sem brýtur gegn ákvæðum laganna eða reglum sem um svæðið gilda.

Hlutverk félagsins

  1. Annast kjara og hagsmunamál landvarða. 
  2. Taka skýra afstöðu í náttúruverndarmálum á Íslandi t.d. með ályktunum um málefni líðandi stundar.   
  3. Stuðla að fræðslu og símenntun landvarða. Landvarðafélagið leggur áherslu á samstarf með stofnunum og félagasamtökum við fræðslu og símenntun landvarða. 
  4. Skapa vettvang sem sameinar landverði. Þetta er m.a. gert með skemmtunum og með því að efla samstarf við önnur félagasamtök.
  5. Taka þátt í alþjóðasamstarfi landvarða og styrkja landverði til að vera rödd íslenskrar landvörslu á erlendum vettvangi. 
  6. Kynna stefnu og starfsemi félagsins ásamt því að kynna starf landvarða út á við.

Hlutverk

 Hlutverk Landvarðafélags Íslands er fjölþætt og felur m.a. í sér:

  • Að vinna að hagsmunum félagsmanna og vera forsvarsaðili þeirra út á við; þar á meðal er að semja um kaup og kjör landvarða. Stjórn og trúnaðarmenn félagsins eru félagsmönnum innan handar ef eitthvað bjátar á í landvörslustarfinu.

 

  • Að svara erindum sem beint er til félagsins, vinna greinagerðir um náttúruverndarmál og senda frá sér yfirlýsingar er varða náttúruverndar- og umhverfismál.

 

  • Að marka stefnu landvarða í náttúruverndarmálum með ýmsu móti. Félagið hefur átt fulltrúa á Náttúruverndarþingi og Umhverfisþingi. Landvarðafélagið hefur tekið virkan þátt í baráttunni fyrir vernd íslenskrar náttúru, gjarnan í samvinnu við frjáls félagasamtök s.s. NSÍ (Náttúruverndarsamtök Íslands), NAUST (Náttúruverndarsamtök Austurlands) og SUNN (Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi). Félagsmenn hafa vakið athygli með bréfaskriftum, í útvarpi og sjónvarpi, greinum í blöðum og á þann máta sem tiltækur hefur verið hverju sinni. Félagsmenn tóku meðal annars þátt í undirskriftarsöfnun sem fram fór þegar baráttan um verndun Eyjabakka stóð yfir. 100 landverðir skrifuðu nafn sitt undir ályktun þess efnis að fara ætti fram mat á umhverfisáhrifum áður en ráðist yrði í hinar fyrirhuguðu framkvæmdir.

 

  • Að kynna stefnu félagsins út á við og störf og hlutverk landvarða.

 

  • Að stuðla að fræðslu og símenntun landvarða í samstarfi við Umhverfisstofnun og fleiri aðila. Landvarðanámskeið eru að jafnaði haldin á tveggja ára fresti og var síðasta námskeið var haldið í febrúar-mars 2010.

 

  • Félagið er í samstarfi við systursamtök erlendis, þar má helst nefna Skoska landvarðafélagið, en samstarfi var komið á þeirra á milli árið 1996. Þessi tengsl eru mjög mikilvæg fyrir félagið og landverði.

 

  • Nokkuð veigamikið hlutverk félagsins er að standa fyrir skemmtunum fyrir félaga. Á 29 ára ævi félagsins hafa ýmsar uppákomur átt sér stað. Vorferðir, haustferðir, fræðslufundir, fræðsluferðir, jólaglögg, vorfagnaðir, haustfagnaðir, Landvarðaþing (2004) o.fl. Landverðir starfa víðs vegar um landið yfir sumarmánuðina og sjaldan gefst tækifæri til þess að hittast á þeim tíma. Því er reynt að hrista starfandi landverði úr öllum landshlutum og fyrrum starfandi landverði saman áður en vertíðin hefst og að loknu sumri með ýmsu móti. Það er mikilvægt að landverðir læri af reynslu hvers annars, heyri hvernig starfinu er háttað á hverju svæði fyrir sig og beri sig saman um starfið.